Staðan á Barnaspítala Hringsins er þung vegna RS-veirufaraldurs en tilfellum fjölgar jafnt og þétt og er tíðnin töluvert hærri en síðasta vetur.
„Það eru mörg börn sem liggja inni og mörg börn sem koma á bráðamóttökuna, þannig þetta er dálítið þungt,“ segir Valtýr Stefánsson Thors, yfirlæknir barnalækninga á Landspítalanum, í samtali við mbl.is.
Eitt til tvö börn þurfa að leggjast inn á spítalann dag hvern, en einhver útskrifast á móti. Flest barnanna eru yngri en þriggja mánaða, en börn allt upp í tveggja ára hafa þó þurft að leggjast inn.
Valtýr segir þessa stöðu hafa verið viðvarandi vikum saman.
„Það eru margar vikur sem ástandið hefur verið þannig. Það væri því mjög gott að fólk sem þarf ekki að koma til okkar myndi leita annað,“ segir Valtýr.
Hann bendir fólki annað hvort á að leita á heilsugæsluna eða Læknavaktina með vægari tilfelli.
Greint var frá því fyrr í dag að viðbúið væri að tilfellum myndi fjölga enn frekar og að skerpa þyrfti á sýkingavörnum heilbrigðisstofnana.
Valtýr segir alveg mögulegt að tilfellum fjölgi eftir hátíðarnar, þar sem samkomur, ferðalög, verslunarferðir, geti aukið útbreiðslu öndunarfærasjúkdóma.
„Líka þó það væru ekki hátíðarnar framundan, þá myndi þetta bara halda áfram. Oft er þetta leikskólasmit til yngri barna, en maður veit ekki hvort það mun auka eitthvað á þetta, það verður að koma í ljós.“
Greint hefur verið frá því að víða í Evrópu sé farið að gefa börnum mótefni til að fyrirbyggja alvarleg veikindi af völdum RS-veirunnar. Ekki hefur verið farið í slíkar aðgerðir hér á landi en það er til skoðunar hjá sóttvarnalækni að útfæra það með einhverjum hætti.
Valtýr sagði í samtali við mbl.is fyrr í þessum mánuði að mótefnameðferðir gegn RS-veiru hefðu gefið góða raun erlendis. Með þeim væri hægt að fækka alvarlegum veikindum og innlögnum um 80 prósent.