Ættu ekki að treysta veðrinu út um gluggann

Varað er við erfiðum akstursskilyrðum, einkum á fjallavegum.
Varað er við erfiðum akstursskilyrðum, einkum á fjallavegum. mbl.is/Arnþór

Helstu veðurspár virðast vera að ganga eftir en suðvestan hvassviðri gengur yfir sunnan- og vestanvert landið sem slær í storm í éljahrinunum. 

Þetta segir Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. 

Appelsínugular veðurviðvaranir Veðurstofunnar eru í gildi á Suðurlandi, Breiðafirði og við Faxaflóa. Er spáð suðvestan 15-25 m/s og dimmum éljum með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum.

Með deginum ætti veðrið að skána og klukkan 18 taka gular veðurviðvaranir við í stað þeirra appelsínugulu og eru í gildi þar til í fyrramálið. 

Gular viðvaranir eru í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Vestfjörðum, Ströndum, Norðurlandi vestra og á Suðausturlandi. 

Ekkert ferðaveður

Eiríkur segir mikilvægt að fólk fylgist með veðrinu en á vef Veðurstofunnar segir að ekkert ferðaveður sé í dag. 

„Mikilvægt er að fólk hafi það í huga að þó svo að veðrið líti ágætlega út um stofugluggann á einum tímapunkti þá þýðir það ekki endilega að það endist lengi eða að það sé jafn gott í nágrenninu,“ segir hann.  

Veðurfræðingur Vegagerðarinnar varar við skafrenningi og erfiðum akstursskilyrðum, einkum á fjallavegum eins og Hellisheiði, Holtavörðuheiði og á Öxnadalsheiði. 

Ofanflóðadeild hefur ekki orðið vör við snjóflóð eða krapaflóð enn sem komið er en fylgist áfram með gangi mála. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert