Björgunarsveitir kallaðar út í nótt

Færðin var fólki til vandræða á jólanótt.
Færðin var fólki til vandræða á jólanótt. Ljósmynd/Landsbjörg

Björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar þurftu að sinna nokkrum verkefnum í gærkvöldi og í nótt vegna slæmrar færðar en hvassviðri með dimmum éljum gekk yfir á vestanverðu landinu í gærkvöldi og var óvissustig á vegum víða um land. 

Á milli klukkan 21 og 22 í gærkvöldi voru björgunarsveitir á Selfossi, Þorlákshöfn, Eyrarbakka og Hveragerði kallaðar út vegna einstaklinga í vandræðum á Hellisheiði, en henni var lokað á tíunda tímanum í gærkvöldi. Einn einstaklinganna þurfti nauðsynlega að komast yfir heiðina og á Selfoss og aðstoðuðu björgunarsveitirnar við það og fluttu hann til síns heima. 

Þetta segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is.

Færðin til vandræða

Þegar jólanótt gekk í garð var tilkynnt um fólk í vandræðum í Bröttubrekku og var björgunarsveitin Heiðar í Borgarfirði kölluð út til að sinna því verkefni. Björgunarsveitin fylgdi fólkinu suður Borgarfjörð þar til fólkið var komið á sæmilega greiðfæran veg og gat haldið leið sinni áfram. 

Björgunarsveitin Heimamenn í Reykhólasveit voru sömuleiðis kallaðir út á Klettháls vegna fólks í vandræðum vegna færðar og komu þeim til aðstoðar.

Ekkert ferðaveður á jóladag

Veðurstofa Íslands varar við því að ekkert ferðaveður sé á jóladag. Hellisheiðin er enn lokuð og munu björgunarsveitir manna lokunarpósta þar í dag. Sömuleiðis er Þjóðvegur 1 lokaður til austurs frá Reykjavík. Auk þess sem Þrengslavegur er lokaður, Nesjavallaleið og Þjóðvegur 1 á Holtavörðuheiði. 

Appelsínugular veðurviðvaranir eru í gildi á Suðurlandi, Breiðafirði og Faxaflóa. Spáð er suðvestan 15-25 m/s og dimmum éljum með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum, hvassast í éljahryðjum, að því er segir á vef Veðurstofunnar.

Gular veðurviðvaranir eru þegar í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Vestfjörðum, Ströndum, Norðurlandi vestra og á Suðausturlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert