„Hálendið eiga menn að skoða“

Sveinn Bjarnason og Rúnar Einarsson voru líklega fyrstir Íslendinga til …
Sveinn Bjarnason og Rúnar Einarsson voru líklega fyrstir Íslendinga til að hjóla leiðina án skipulagðrar aðstoðar. Ljósmynd/Aðsend

Sveinn Bjarnason og Rúnar Einarsson voru líklega fyrstir Íslendinga til að hjóla Sprengisand án skipulagðrar aðstoðar. Ferð þeirra átti sér stað árið 1958 en langafabarn Sveins, Kristófer Óli Birkisson, framleiddi nýlega heimildamynd um ferðina.

Myndina sýndi hann á viðburði Kvikmyndaskólans síðastliðinn föstudag í Laugarásbíói. Rúnar var viðstaddur sýninguna og sagðist afar ánægður með myndina.

Kristófer Óli Birkisson framleiddi nýlega heimildamynd um ferð langafa síns …
Kristófer Óli Birkisson framleiddi nýlega heimildamynd um ferð langafa síns árið 1958. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sagan fylgt ættinni

Sagan af ferðinni hefur fylgt ætt Kristófers í gegnum tíðina en hefur fram að þessu ekki verið sögð opinberlega. Í samtali við mbl.is segir Kristófer gerð myndarinnar hafa verið mikið ævintýri og gaman hafi verið fyrir hann að komast að því hvernig maður langafi hans var.

Tjaldað í Herðubreiðarlindum.
Tjaldað í Herðubreiðarlindum. Ljósmynd/Aðsend

Hann hafi með framleiðsluferli myndarinnar fengið að tengjast langafa sínum á nýjan hátt en Sveinn féll frá árið 2016, þegar Kristófer var 12 ára gamall. „Mér þótti ég kynnast honum betur bara við það að fá að heyra söguna frá lávörðunum og Rúnari vini hans sem fór með honum í ferðalagið,“ segir Kristófer.

Þar vísar hann til þess að Sveinn var virkur félagi í Flugbjörgunarsveitinni Reykjavík, en eldri félagar þeirrar sveitar ganga undir nafninu lávarðar.

Þá segir hann Svein og Rúnar hafa fengið aðstoð vinar síns, Péturs, við að útbúa hjólin fyrir ferðina en Pétur rak um tíð hjólaverslunina Örninn og var sjálfur mikill hjólagarpur.

Stilla af viðtali við Rúnar Einarsson úr myndinni.
Stilla af viðtali við Rúnar Einarsson úr myndinni. Ljósmynd/Aðsend

„Við fáum að kynnast Rúnari í byrjun og Sveini langafa. Síðan dembum við okkur beint í ferðasöguna þeirra og hverju þeir lentu í frá því þeir lögðu af stað frá Reykjavík,“ segir Kristófer, „Þeir keyrðu norðurleiðina alveg að Mývatni og Jökulsá. Þá fóru þeir á hjólum yfir Sprengisandinn, í gegnum Vonarskarðið og alla leið niður að Landmannalaugum.“

Minningar af hálendinu

Myndin greinir frá ferðinni á skemmtilegan og persónulegan hátt. Fram kemur að Sveinn hafði mikla ánægju af náttúrunni og að hann var félagi í Flugbjörgunarsveitinni, en tekið er viðtal við aðra lávarða í myndinni.

Hjólað brekkuna upp Langaháls.
Hjólað brekkuna upp Langaháls. Ljósmynd/Aðsend

Afi Kristófers, sonur Sveins, Ólafur Björn Sveinsson, er einnig til viðtals í myndinni þar sem hann segir menn ekki hafa séð Ísland almennilega ef þeir hafi ekki skoðað hálendið, „Hálendið eiga menn að skoða“ er haft eftir honum.

Þá rifjar Ólafur upp hinar ýmsu minningar af útilegum á hálendinu með föður sínum. Til að mynda hafi þá tíðkast að kæla mat í ám þar sem engin ferðakælibox hafi verið til staðar á þeim tíma.

Hágöngur og öldurnar að baki.
Hágöngur og öldurnar að baki. Ljósmynd/Aðsend

Gríðarleg vinna að baki

Myndin er eitt verkefna Kristófers í námi hans við Kvikmyndaskólann. Að sögn Kristófers er heimildamyndagerð erfið. Fólk sjái hálftíma mynd en vinnan að baki sé gífurleg.

Hann segist ákveðinn í að útskriftarverkefni sitt í náminu verði einnig um þessa sömu ferð langafa síns. Hún verði hins vegar leikin endurgerð af ferðinni.

Norður með austurhlíðum Dyngjufjalla.
Norður með austurhlíðum Dyngjufjalla. Ljósmynd/Aðsend

Stefnan sé að segja aðeins hluta sögunnar í anda myndarinnar Against the ice eftir danska leikarann Nikolaj Coster-Waldau sem gerist árið 1909. Í henni berjast tveir landkönnuðir fyrir lífi sínu eftir að þeir eru skildir eftir á leiðangri um Grænland.

„Það hefur verið rosalegt ævintýri og þrekvirki að koma þessu í gang,“ segir Kristófer um gerð myndarinnar. Með myndinni heiðrar hann langafa sinn og heldur minningu hans og ferðarinnar á lífi.

Sveinn gengur með hjólið.
Sveinn gengur með hjólið. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert