Átta umferðaróhöpp urðu á höfuðborgarsvæðinu á aðfangadagskvöld frá því jólin voru hringd inn og til miðnættis, þar af tvö þar sem slys urðu á fólki.
Pétur Sveinsson í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir um töluverðan fjölda að ræða á þetta stuttum tíma.
„Það voru strax tvö óhöpp á sjöunda tímanum og svo raðaðist þetta svona eitthvað fram að miðnætti.“
Í dagbók lögreglu voru skráð 13 umferðaróhöpp frá klukkan 17 í gær og til 5 í morgun.
Lögreglustöð tvö, sem sinnir verkefnum í Hafnafirði og Garðabæ, bárust m.a. sex tilkynningar um umferðaróhöpp en í einu tilfelli keyrði ökumaður á ljósastaur og var vistaður í fangaklefa vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis.
Þá bárust lögreglustöð eitt, sem sinnir verkefnum í vesturhluta borgarinnar og á Seltjarnarnesi, þrjár tilkynningar um umferðaróhöpp en enginn slasaðist alvarlega.
Pétur segir umferðina almennt hafa gengið ágætlega. „Það eru svo sem alltaf umferðaróhöpp og stundum eru slys í þeim en heilt yfir hefur þetta gengið ágætlega.“
Segir hann talsvert meiri umferð í kringum jólin en almennt gengur og gerist en það jákvæða sé að þá hægist einnig á umferðinni.
Hann segir fólk almennt vakandi yfir því að vera á vel búnum bílum og með dekkin í lagi, sem sé afskaplega mikilvægt í þessari tíð.