Birta Hannesdóttir
Íbúar höfuðborgarsvæðisins geta átt von á töluverðum kulda um helgina þar sem frost getur farið niður í 13 til 18 stig.
Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að þrátt fyrir töluvert frost megi gera ráð fyrir bjartviðri og norðlægri átt sem verður þó ekki mjög hvöss.
Hann segir lægðina sem gengur nú yfir sunnan- og vestanvert landið koma frá Grænlandsjökli en þegar sú lægð fer að hreyfast í burtu dregur hún með sér norðlægari áttir frá Norður-Íshafi og kuldann í kjölfarið.
Aðspurður segir Eiríkur líklegt að kuldinn verði viðvarandi fram á nýtt ár og geta íbúar höfuðborgarsvæðisins gert ráð fyrir því að ganga inn í komandi ár með frost í tveggja stafa tölu.
„Þetta er orðið talsvert frost og ekki eitthvað sem við sjáum vikulega eða mánaðarlega hérna í borginni,“ segir Eiríkur.