Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um strætó sem keyrði utan í bifreið í Grafarholti í kvöld. Ekki varð slys á fólki.
Þetta segir Hörður Lilliendahl, varðstjóri umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Aðspurður hvort þeim hafi borist margar tilkynningar um mörg önnur umferðaróhöpp segir Hörður þær hafa verið færri en hann bjóst við.
„Það er rólegra í dag en það var í gær. Það var svolítið um umferðaróhöpp í gær þegar fólk var að fara í jólaboð á aðfangadagskvöldi. Við vorum búnir að undirbúa okkur að það myndi kannski aftur vera svoleiðis á jóladag en það hefur verið miklu rólegra í kvöld.“
Hann segir umferðardeildinni hafa borist um þrjár tilkynningar um smávægileg umferðaróhöpp þar sem fólk slasaðist ekki.
Hörður ítrekar það í samtali við mbl.is að hámarkshraði á vegum miðist við bestu mögulegu aðstæður, sem séu ekki fyrir hendi núna. Jafnframt að áfengi og akstur fari ekki saman.