Töluvert var um umferðaróhöpp í nótt og gærkvöldi en alls voru skráð 13 slík tilfelli í dagbók lögreglu frá klukkan 17 í gær og til 5 í morgun.
Alls voru 38 mál bókuð í kerfum lögreglu á tímabilinu og vörðu tveir jólanótt í fangaklefa.
Lögreglustöð tvö, sem sinnir verkefnum í Hafnafirði og Garðabæ, bárust sex tilkynningar um umferðaróhöpp þar sem í einu tilfelli keyrði ökumaður á ljósastaur og var hann vistaður í fangaklefa vegna gruns um að hann væri undir áhrifum áfengis.
Lögreglustöð eitt, sem sinnir verkefnum í vesturhluta borgarinnar og á Seltjarnarnesi, bárust þrjár tilkynningar um umferðaróhöpp en enginn slasaðist alvarlega.
Einnig barst tilkynning frá leigubílstjóra sem óskaði eftir aðstoð vegna farþega sem gat ekki greitt fyrir umbeðinn akstur.
Ásamt því að sinna útköllum er vörðuðu umferðaróhöpp þá barst lögreglustöð þrjú tilkynning um innbrot í fyrirtæki og er málið í rannsókn lögreglu, að því er segir í dagbók hennar.