Var að slitna frá bryggju sökum hvassviðris

Hér má sjá björgunarbátinn Jón Gunnlaugsson að störfum.
Hér má sjá björgunarbátinn Jón Gunnlaugsson að störfum. Ljósmynd/Landsbjörg

Björgunarsveitin á Akranesi var kölluð út í kringum hádegið í dag þar sem bátur var að slitna frá bryggju sökum slæms veðurs.

Björgunarbáturinn Jón Gunnlaugsson og lóðsbáturinn Þjótur voru mannaðir og komu bátnum aftur í bryggju þar sem landfestur voru tryggðar. 

Þetta segir Jón Þór Víglundsson, í samtali við mbl.is, en tilkynning sama efnis barst fjölmiðlum fyrir skömmu.

Þá var björgunarsveitin í Vestmannaeyjum kölluð til vegna stórs flutningabíls sem stóð rétt hjá Eldfelli en vindurinn var við það að rjúfa þekju tengivagnsins sem hefði getað splundrast vegna vinds. Björgunarsveitin kom þó í veg fyrir það. 

Veðrið hefur leikið landsmenn grátt frá því í gærkvöldi en greint var frá því fyrr í dag að björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar hefðu verið kallaðar út í gærkvöldi og nótt vegna fólks sem var í vandræðum vegna færðar.

Opna ekki Hellisheiðina eða Þrengslaveg í dag

Ekkert ferðaveður er í dag, jóladag, og gerir Vegagerðin ekki ráð fyrir að Hellisheiðin eða Þrengslavegur verði opnaður í dag vegna spár um slæmt veður. 

Appelsínugular veðurviðvaranir Veðurstofunnar eru enn í gildi á Suðurlandi, Breiðafirði og við Faxaflóa. Er spáð suðvestan 15-25 m/s og dimmum éljum með lélegu skyggni og versn­andi akst­urs­skil­yrðum, hvass­ast í élja­hryðjum.

Veðrið skánar með deginum og verða appelsínugular veðurviðvaranir að gulum um 18 í kvöld.

Gular viðvaranir eru í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Vestfjörðum, Ströndum, Norðurlandi vestra og á Suðausturlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert