Björn Leifsson, framkvæmdastjóri World Class, segir að 1.100 manns hafi mætt í World Class í Laugum í gær og í stöðinni í Ögurhvarfi, sem er opin allan sólarhringinn fyrir korthafa World Class þar sem notast er við augnskanna við inngang, hafi 830 manns mætt til að æfa í gær.
„Við göntumst oft með það að það séu 365 æfingadagar á ári,“ segir Björn við mbl.is. World Class í Laugum var opin í gær frá 10 til 16.30 og í dag frá klukkan 8 til 19.30.
„Það er búið að vera nóg að gera í dag og margir sem vilja hreyfa sig eftir alla matarveisluna yfir jólin. Það eru allir í góðu skapi," segir starfsmaður World Class í Laugum við mbl.is.
Hann segir að stöðinni í Ögurhvarfi hafi verið breytt í 24 tíma stöð síðastliðið haust og hafi þeirri nýbreytni verið vel tekið.
„Hún er að mestu leyti án starfsmanna nema þegar það eru leikfimitímar en svo er fólk auðvitað að þrífa stöðina. Þetta hefur gengið glimrandi vel og ef eitthvað er þá er betur gengið um þar heldur en þar sem er starfsfólk,“ segir Björn.
Hann segir að jafnaði séu um 60 manns sem mæti í stöðina í Ögurhvarfi frá miðnætti til hálf sex á morgnana og að yngri kynslóðin sæki stöðina mikið eftir klukkan 21 á kvöldin og er þar fram yfir miðnætti.