Skemmdir í Bláfjöllum eftir veðrið

Unnið er að því að fara yfir svæðið og gera …
Unnið er að því að fara yfir svæðið og gera það klárt fyrir helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Minni háttar skemmdir urðu á skíðasvæðinu í Bláfjöllum eftir veðrið sem gekk yfir svæðið í gær og í nótt. Skíðasvæðið verður lokað í dag og verður unnið að því að fara yfir svæðið og koma því í lag fyrir helgina. 

Þetta segir Einar Bjarnason, rekstrarstjóri Bláfjalla, í samtali við mbl.is. 

Segir Einar að ísing sé á öllum lyftum, stjórnbox hafi dottið niður og að línur tengdar skíðalyftunum hafi slitnað.

„Það er ekkert spennandi veður hérna. Það eru dottin niður einhver stjórnbox og eitthvað sem ég býst við að við getum lagað hratt og örugglega, það kemur í ljós í dag,“ segir hann. 

Hann gat ekki sagt nákvæmlega til um hvenær hægt verði að opna skíðasvæðið á ný en vonast til þess annaðhvort á morgun eða um helgina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert