Björgunarsveitir etja kappi við myrkrið

Allar björgunarsveitir á Suðurnesjum voru kallaðar út í leitina að …
Allar björgunarsveitir á Suðurnesjum voru kallaðar út í leitina að uppruna neyðarboðsins. mbl.is/Arnþór

Þyrla og flugvél Landhelgisgæslunnar eru báðar lentar eftir að hafa leitað á láði og legi að uppruna dularfulls neyðarboðs við Reykjanesskaga. Mögulega barst boðið frá týndum einstaklingi. Leit heldur áfram en björgunarfólk er í kappi við tímann þar sem brátt tekur að dimma.

Neyðarboð barst Landhelgisgæslunni með gervi­tungli um klukk­an 09.30 í morgun. Í neyðarboðinu voru tvær staðsetn­ing­ar gefn­ar upp; önn­ur var í Mera­döl­um nærri Fagra­dals­fjalli og hin í hafi suður af Þor­láks­höfn.

Gæslan hefur leitað af sér allan grun við Þorlákshöfn. Þyrla gæsl­unn­ar og flugvél voru sendar til að leita á svæðunum og gæsl­an upp­lýsti einnig fiski­skip í nágreni við Þorlákshöfn um neyðarboðið.

Þyrlan og flugvélin eru báðar lentar í Reykjavík, að sögn Ásgeirs Erlendssonar upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, eftir að hafa kannað báðar staðsetningar sem gefnar voru upp í neyðarboðinu.

70 manns við leit í Meradölum

Leitin heldur þó áfram við Meradali. Nú eru um 70 manns við leit á svæðinu, að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar.

Leitin miðar helst við svæðið í nágreni við Meradali en veðurfar er slæmt.

„Það gengur á með suðvestan éljum og það verður dimmt í éljunum,“ segir Jón Þór, en björgunarfólk reynir nú að dekka sem breiðast svæði áður en tekur að dimma.

Að sögn viðbragðsaðilar þykir líklegt að neyðarboðið hafi borist frá neyðarsendi í einka­eigu. Viðbragðsaðilar hafa einnig reynt að ná sambandi við eigendur mannlausra bíla í nágreninu „en svo langt sem ég veit er búið að útiloka þá,“ segir Jón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert