Búast við heilsuspillandi svifryksmengun

Nokkrar líkur eru á svifryksmengun fyrstu klukkustundir ársins 2025.
Nokkrar líkur eru á svifryksmengun fyrstu klukkustundir ársins 2025. mbl.is/Árni Sæberg

Búist er við því að svifryksmengun verði yfir heilsuverndarmörkum í Reykjavík um áramótin og á nýársdag, að því er segir í tilkynningu Reykjavíkurborgar.

Segir þar að nokkrar líkur séu á svifryksmengun fyrstu klukkustundir ársins 2025 vegna mengunar frá flugeldum.

Enn fremur segir þar að svifryksmengun vegna flugelda sé bæði varasöm og heilsuspillandi.

Viðkvæmir haldi sig innandyra

„Á gamlársdagsmorgun er útlit fyrir hæga austanátt sunnan- og vestantil á landinu með engri úrkomi og miklu frosti. Talsverðar líkur eru því að loftgæði verði slæm eitthvað fram á nýársdag miðað við veðurspá,“ segir í tilkynningu.

„Fólk með viðkvæm öndunarfæri, hjarta- og æðasjúkdóma og börn eru sérstaklega viðkvæm fyrir svifryki. Æskilegast er fyrir þennan hóp að vera innandyra þegar mest gengur á í kringum um miðnættið og loka gluggum.“

Hægt er að fylgjast með styrk svifryks á vefsíðu Umhverfisstofnunar, loftgaedi.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert