Umfangsmikið útkall: Neyðarboð við Meradali

Þyrla og flugvél Landhelgisgæslunnar hafa verið ræstar út.
Þyrla og flugvél Landhelgisgæslunnar hafa verið ræstar út. mbl.is/Árni Sæberg

Viðbragðsaðilar sinna nú umfangsmiklu útkalli á Reykjanesskaga eftir að neyðarboð barst til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar í morgun. Mögulegt er að týndur einstaklingur hafi sent boðið.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir að neyðarboð hafi borist með gervitungli um klukkan 09.30 til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar. 

Landhelgisgæslan, lögreglan og björgunarsveitir sinna útkallinu. Þar af eru um 50 björgunarmenn úr öllum björgunarsveitum á Suðurnesjum að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. 

Leita á láði og legi

Í neyðarboðinu voru tvær staðsetningar gefnar upp; önnur var í Meradölum nærri Fagradalsfjalli og hin í hafi suður af Þorlákshöfn. 

Þyrla gæslunnar var send til að leita yfir hafinu við Þorlákshöfn en gæslan upplýsti einnig fiskiskip á svæðinu um neyðarboðið.

Enginn fannst við leitir á sjó og stefnir þyrlan nú að Meradölum. Gæslan hefur nú sent eftirlitsflugvélina TF-SIF að svæðinu suður af Þorlákshöfn til að leita af sér allan grun.

Líklegast á landi

Ásgeir segir að neyðarboðið hafi líklegast borist frá neyðarsendi í einkaeigu.

„Þetta er bara svona neyðarsendir sem fólk getur til dæmis haft á sér,“ útskýrir Ásgeir. Með tilliti til þess sé líklegra að boðið hafi borist frá landi, frekar en sjó.

Bæði Ásgeir hjá gæslunni og Jón Þór hjá Landsbjörg segja engar fleiri vísbendingar um uppruna boðsins liggja fyrir að svo stöddu.

Frétt hefur verið uppfærð með upplýsingum frá Landsbjörg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert