Frábært veður til þess að skjóta upp flugeldum

Útlit er fyrir bjartviðri á gamlársdag.
Útlit er fyrir bjartviðri á gamlársdag. mbl.is/Árni Sæberg

Útlit er fyrir mjög góð veðurskilyrði til þess að skjóta upp flugeldum á gamlárskvöld þrátt fyrir talsverðan kulda.

Þetta segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur á Bliku, í samtali við mbl.is.

Hann segir að á gamlársdag gæti frost verið um 10 stig á höfuðborgarsvæðinu og þá eru líkur á því að það verði nokkuð heiðskírt. Hann gerir ráð fyrir litlum vindi á höfuðborgarsvæðinu en þó ekki alveg logni.

Ólíklegt að brennum verði frestað

Er þetta fullkomið veður til þess að skjóta upp flugeldum?

„Ég held að þetta sé mjög gott veður til þess. Eiginlega eins gott og hugsast getur ef menn ætla njóta dýrðarinnar,“ segir Einar.

Hann gerir ekki ráð fyrir því að brennum verði frestað á landinu miðað við veðurspár. 

„Þannig það verður ansi napurt“

Hann segir að það verði norðan- eða norðaustanátt um land allt og frost. Það verður einhver éljagangur á norðurlandi og eins á héraði á Austfjörðum. Að öðru leyti er útlit fyrir að það verði bjartviðri og sjáist vel til stjarna.

Á Suðurlandi gæti frost náð 15 stigum og þar verður meiri vindur. „Þannig það verður ansi napurt,“ segir Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert