Flugeldasala Landsbjargar hefst um land allt á morgun. Í samtali við mbl.is segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, flugeldasöluna stærstu fjáröflun björgunarsveita landsins.
Undirbúningur hafi gengið vel en hann hafi staðið yfir jafnt og þétt yfir árið.
Að sögn Jóns Þórs fer pöntun fram í byrjun árs og berast vörurnar til landsins frá miðju ári og fram á haustið. Þá sé vörunum dreift til sveitanna í byrjun desember.
„Daginn fyrir gamlársdag má segja að 70% þeirra sem ætla að kaupa sér flugelda fyrir áramótin eigi það eftir. Reynslan sýnir okkur að um helmingur sölunnar á sér stað á gamlársdag,“ segir Jón Þór, það sé fyrir marga áramótahefð að fara með fjölskylduna á flugeldasöluna.
Landsbjörg stendur fyrir yfir 100 sölustöðum um land allt.
Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Landsbjargar.