Um 40 manns eru í einangrun á Landspítala vegna öndunarfærasýkingar. Ástandið á spítalanum er þungt.
Þetta segir Hildur Helgadóttir, formaður farsóttanefndar Landspítalans, í samtali við mbl.is.
Hildur segir margar veirur vera að ganga um samfélagið. „Það eru mikil veikindi í samfélaginu og við erum farin að sjá fólk með inflúensu koma inn til okkar.“
Á aðfangadag var ákveðið að taka upp grímuskyldu á Landspítalanum. Þá var því einnig beint til fólks að taka ekki aðstandendur sína heim yfir hátíðarnar ef veikindi væru á heimilinu. Aðspurð segir Hildur fólk hafa tekið vel í þessi tilmæli.
Aðgerðirnar verða endurmetnar 6. janúar, en Hildi þykir líklegt að þeim verði ekki alveg aflétt í janúar. Hún býst við því að staðan á Landspítalanum muni þyngjast.
„Þessi árlega inflúensa er alltaf þung á spítalanum. Það eru margir sem koma og eru veikir og þurfa einangrun. Húsnæðið okkar er ekki vel í stakk búið, við erum ekki með mörg einangrunarrými. Það er það sem er snúið, en þá reynum við að einangra fólk saman sem er með sömu veirusýkinguna,“ útskýrir Hildur.