Vegurinn um Súðavíkurhlíð er áfram lokaður vegna snjóflóðahættu en snjóflóð féll á veginn í gær. Snjóflóðahætta ætti að minnka með deginum.
Þetta segir Erla Guðný Helgadóttir, snjóflóðasérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
„Við höfum ekki sent út að snjóflóðahætta hafi minnkað mikið en við búumst nú við því að snjóflóðahætta minnki með deginum. Þannig að vegurinn er enn þá lokaður. Veðurspáin er þannig að hún á að batna yfir miðjan daginn en það getur verið að það komi aftur eitthvað með kvöldinu,“ segir Erla.
Hún segir að ástandið verði óbreytt næstu klukkutíma en að fylgst sé náið með aðstæðum. Veðurstofan hefur svo samband við Vegagerðina þegar og ef aðstæður breytast.
Nokkuð stórt snjóflóð féll yfir veginn í fyrrinótt eða gærmorgun og fleiri minni snjóflóð fylgdu.