Veitur biðla til almennings að halda hitanum inni, í ljósi kuldakasts í veðurkortunum.
Þetta segir Silja Ingólfsdóttir, upplýsingafulltrúi Veita, í samtali við mbl.is.
Staðan sé tekin á hverjum degi að vana og Veitur hafi haft samband við samstarfsfólk sitt hjá sveitarfélögunum í morgun, í þeim tilgangi að undirbúa til að mynda starfsfólk sundlauga, ef koma skyldi til lokunar.
Það sé þó ekki gert nema í ýtrustu neyð, ef kaldir dagar verða margir hver á eftir öðrum.
Þá segir Silja mestu máli skipta hversu lengi kuldakast varir og að það muni betur koma í ljós eftir helgi. Staðan sé þó ekki óvenjuleg og Íslendingar séu upp til hópa vanir kulda.