„Skoðun mín hefur ekkert breyst,“ segir Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og þingmaður Flokks fólksins, spurður hvort skoðun hans á bókun 35, um að frumvarpið feli í sér stjórnarskrárbrot, hafi breyst.
Eyjólfur hefur lýst skoðun sinni á málinu afdráttarlaust á Alþingi og í fjölmiðlum. Í ræðu á Alþingi 7. mars um framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sagði hann:
„Framsal löggjafarvaldsins. Þess vegna var bókun 35 ekki sett í lög. Þetta er þjóðréttarleg skuldbinding í dag gagnvart Evrópusambandinu. Þetta er ekki inni í lögum og lausnin var 3. grein laga um EES-samninginn. Það er alveg kristaltært að ef þetta verður sett í lög mun það ganga gegn löggjafarvaldinu, um framsal löggjafarvalds, og ganga gegn stjórnarskránni.“
Eyjólfur segir í samtali við Morgunblaðið að í bókuninni komi fram að ef þörf krefur eigi að setja lög sem tryggi að ef EES-reglur og önnur sett lög sem komin eru til framkvæmdar stangist á eigi EES-reglur að ganga framar.
„Ég tel í fyrsta lagi að þessi þörf sé ekki fyrir hendi. Okkur hefur gengið vel í EES-samstarfinu í 30 ár. Vandamálið var leyst með 3. grein laga um EES-lögin.“ Hann tekur fram að það sé ekki sitt að dæma um það hvort lög brjóti gegn stjórnarskrá heldur dómstóla. Hann sé hins vegar að segja sína skoðun á bókun 35.
„Ég tel ekki að það sé hægt að ein almenn lög sem séu rétthærri en önnur almenn lög,“ segir Eyjólfur og bætir við: „Það er ekki hægt, að lög með uppruna í Brussel séu rétthærri öðrum almennum lögum burtséð frá öðrum lögskýringaraðferðum.“
Eyjólfur sagði í viðtali á Útvarpi Sögu 13. september að þeir sem hefðu áhuga á fullveldi Íslands myndu berjast gegn bókun 35 og þar á meðal hann. Spurður út í þessi ummæli og hvort hann myndi berjast gegn málinu svarar hann að Flokkur fólksins sé í málamiðlunum. „Ég mun ekki gera bókun 35 að ágreiningsmáli innan stjórnarflokkanna. Það eru alveg hreinar línur, ég mun ekki gera það. Ég hef haldið þeim rökum fram að ég telji að þetta muni binda hendur löggjafans til framtíðar,“ segir Eyjólfur. Í samtali við mbl.is í gær sagði Eyjólfur að Flokkur fólksins væri að fá gríðarlega mikilvæg mál í gegn með ríkisstjórnarsamstarfinu. Nefndi hann að strandveiðitímabilið yrði 48 dagar sem dæmi.
Spurður hvort það kæmi til greina að hann myndi sitja hjá við atkvæðagreiðslu um bókun 35, ef til þess kæmi, svaraði Eyjólfur: „Það gæti alveg komið til greina. Þetta er ekkert stórmál, þannig lagað. En ég er ekki að fara að slíta ríkisstjórn vegna þessa. Lögfræðileg skoðun mín er sú að við höfum verið í 30 ár í EES án þess að taka upp bókun 35 og það hefur gengið vel.“