Efna til undirskriftasöfnunar fyrir Helga á ný

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Búið er að efna til nýrrar rafrænnar undirskriftasöfnunar á vef island.is til stuðnings Helga Magnúsi Gunnarssyni vararíkissaksóknara. Ríkissaksóknari birti tilkynningu á vef sínum rétt fyrir jól um að Helga skorti almennt hæfi til að gegna embætti vararíkissaksóknara og segist Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari ekki geta úthlutað verkefnum til Helga.  

Þegar þetta er skrifað hafa tæplega 400 manns undirritað listann en í texta með undirskriftarlistanum segir: 

„Undirrituð/aður lýsir stuðningi sínum við Helga Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknara og störf hans hjá embættinu. Sérstaklega þar sem nú er aftur vegið að æru hans af ríkissaksóknara sem hunsar starfskrafta hans og virðir ekki embættisskyldu sína eða samstarfsvilja.“

Annar undirskriftarlistinn til stuðnings Helga

Þetta er í annað sinn sem efnt er til slíkrar undirskriftasöfnunar til stuðnings Helga en ríkissaksóknari hafði óskað eftir því í sumar að dómsmálaráðherra myndi leysa Helga Magnús tímabundið frá störfum vegna ummæla hans í garð hinsegin fólks og útlendinga. 

Var þá skorað á þáverandi dómsmálaráðherra, Guðrúnu Hafsteinsdóttur, að hafna beiðni ríkissaksóknara, sem hún svo gerði. 

Helgi sagði í samtali við mbl.is fyrr í mánuðinum að framganga Sigríðar hafa tekið mikið á hann og fjölskyldu hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka