Flytja fyrstu ávörp sín um áramótin

Samsett mynd/mbl.is/Eggert/Karítas

Þær miklu breytingar sem átt hafa sér stað í æðstu embættum landsins á árinu heyra til tíðinda fyrir margra hluta sakir, einna helst þær að konur gegna nú embætti forsætisráðherra, forseta og biskups.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Halla Tómasdóttir forseti munu flytja sín fyrstu ávörp til þjóðarinnar um áramótin; Kristrún að kvöldi gamlársdags og Halla á nýársdag. Þá mun Guðrún Karls Helgudóttir biskup flytja sína fyrstu nýárspredikun í embætti.

Merkileg tímamót

Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í kvenna- og kynjasögu við Háskóla Íslands, segir þetta tvímælalaust marka merkileg tímamót í Íslandssögunni. Það eigi sér einnig fá fordæmi meðal nágrannaþjóða að konur gegni slíkum embættum samtímis. Því sé um mikilvæga stund að ræða í sögu kvennabaráttu á Íslandi.

„Eins og staðan var hér í kringum 1950 og fram til 1980 var ekkert sem benti til þess að þetta yrði staðan í dag. Við Íslendingar höldum oft að við höfum verið mjög framarlega í jafnréttismálum en sú er þó alls ekki raunin. Þó svo að konur fengju snemma lagaleg réttindi á við karla var lengst af mikil tregða við því að koma konum í valdastöður. Frá því að Ingibjörg H. Bjarnason kemst á þing líða um 60 ár þangað til þingmannafjöldi kvenna nær fimm prósentum,“ segir Erla í samtali við Morgunblaðið.

Erla Hulda er prófessor í kvenna- og kynjasögu við Háskóla …
Erla Hulda er prófessor í kvenna- og kynjasögu við Háskóla Íslands mbl.is/Eggert Jóhannesson

Erla bendir á að ef spurt sé hvers vegna konur séu komnar á þann stað sem þær eru á í dag, þá hafi lengi gengið sú mýta að það sé einfaldlega í eðli norrænna kvenna, sem eiga ættir að rekja aftur til víkinga, að gegna leiðtogahlutverkum. Í sögulegu ljósi sjáist þess þó ekki merki, heldur sé árangurinn afrakstur þrotlausrar baráttu fyrir jafnri stöðu kynjanna.

Stefán Pálsson sagnfræðingur er á sama máli og Erla Huld.
Stefán Pálsson sagnfræðingur er á sama máli og Erla Huld. mbl.is/María

Stefán Pálsson sagnfræðingur tekur í sama streng. Hann bendir jafnframt á að þó svo að Norðurlönd hafi lengi hampað sér af stöðu sinni í jafnréttismálum hafi sögulega séð verið rík hefð fyrir kvenleiðtogum í löndum Suðaustur-Asíu, s.s. á Indlandi og í Pakistan, þar sem öflugir kvenleiðtogar hafi verið við völd og það meira að segja á undan flestum Vesturlöndum.

Erla og Stefán telja þó bæði alls óvíst að sú staða sem nú sé komin upp muni ríkja til frambúðar. En jákvætt sé að sjá svo margar konur í áhrifamiklum embættum, enda sé það til þess eins fallið að vinna gegn rótgróinni sannfæringu sumra um að konur séu ekki jafn hæfir leiðtogar og karlar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka