Allt í allt hafa björgunarsveitir aðstoðað fólk á yfir 30 bifreiðum í kvöld. Flestir þurftu aðstoð á Vatnsskarði, en veginum þar um var lokað fyrr í kvöld.
Aðgerðum björgunarsveita Slysavarnarfélagsins Landsbjargar var að mestu leyti lokið er blaðamaður hafði samband við Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, um klukkan 21.45 í kvöld.
Upphaflega var tilkynnt um eða yfir 20 bíla á Vatnsskarði, einhverja bíla í Skagafirðinum og út að Hofsósi. Svo voru einhverjar bifreiðar á Klettshálsi og Holtavörðuheiði.
Margar björgunarsveitir hafa sinnt þessum útköllum. Eins og gefur að skilja var mesta vinnan á Vatnsskarði og flest björgunarsveitarfólk.
Komu sumir frá Björgunarfélaginu Blöndu og Björgunarsveitinni Strönd á Skagaströnd. Flugbjörgunarsveitin í Varmahlíð fór á skarðið austan frá.
„Einhverjir höfðu lent út af og aðrir voru fastir. Það þurfti svolítið að vinna á þessu einn bíl í einu. Einhverjum var fylgt niður og aðrir gátu farið á eigin vegum,“ segir Jón Þór.
Veðrið á svæðinu virðist vera að skána og orðið ágætt í Langadal, að sögn Jóns Þórs.
„Þetta er allt að leysast,“ segir Jón Þór af mikilli yfirvegun.
Á Klettshálsi kom björgunarsveitarfólk frá Heimamönnum á Reykhólum, Lómfelli á Barðaströnd og Blakki á Patreksfirði níu manns á tveimur bifreiðum til aðstoðar. Meðal farþega voru þrjú börn.
Björgunarsveitin Heiðar í Borgarfirði aðstoðaði fólk sem lenti í vandræðum á bifreið sinni á sunnanverðri Holtavörðuheiði.
Flugbjörgunarsveitin í Varmahlíð kom ferðalöngum í Blönduhlíð til aðstoðar.
Einnig kom björgunarsveitarfólk frá öðrum landshlutum að verkefnum kvöldsins sem aðgerðastjórnendur.