Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir hlaupaáhugakona fór sína 300. ferð á Esjuna í dag. Í samtali við mbl.is segir hún að það hafi ekki verið neitt sérstakt markmið að ná þessum fjölda ferða á árinu til að byrja með.
„Ég náði 200 ferðum í október og svo héldu ferðirnar áfram að hlaðast upp þannig ég sá að ég var í ágætisfæri að ná 300. Þannig ég ákvað að láta vaða,“ segir Hafdís.
Hún segist hafa vanið ferðir sínar upp fjallið snemma morguns áður en hún mætir til vinnu. Aðspurð segir Hafdís flestar ferðirnar hafa verið upp að Steini og að hún oftast farið upp tvær ferðir í einu. Mest fór hún ellefu ferðir upp að Steini í einu í sumar.
Hafdís keppir í fjallahlaupum og segir ferð upp Esjuna vera góða æfingu fyrir keppnishlaupin.
Spurð hvort hún ætli sér fleiri ferðir upp Esjuna á næsta ári segir Hafdís að hún myndi vilja reyna við 400 eða 500 ferðir eftir tvö ár eða árið 2026.
„Þetta er bara besta æfingasvæðið sem við eigum, það er bara með allt,“ segir hún.