Skiptar skoðanir um frestun landsfundar

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins á að fara fram í lok febrúar.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins á að fara fram í lok febrúar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skiptar skoðanir eru meðal formanna málefnanefnda Sjálfstæðisflokksins um hvort leggja eigi til við miðstjórn að fresta landsfundi fram á vor eða haust. Tillaga um frestun hefur ekki verið send miðstjórn.

Í gær voru fluttar fréttir af því að til umræðu væri að fresta landsfundi. 

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins á að fara fram í lok febrúar. 

Samkvæmt heimildum mbl.is voru formenn málefnanefnda boðaðir á fund í Valhöll í desember þar sem á dagskrá var að ræða landsfund. Málefnanefndir þurfa að skila drögum að ályktunum fyrir fundinn. Yfirleitt eru drögin unnin í samráði við flokksmenn. Vegna alþingiskosninganna 30. nóvember hefur þeirri vinnu seinkað.

Eftir fundinn voru rituð drög að bréfi sem til stóð að senda miðstjórn. Þar var lagt til að landfundi yrði frestað. Ekki er einhugur meðal formanna málefnanefnda um hvort fresta eigi fundi fram á vor eða haust. Því hefur tillaga um frestun ekki verið send til miðstjórnar. 

Fjölmargir sjálfstæðismenn eiga sæti á landsfundi.
Fjölmargir sjálfstæðismenn eiga sæti á landsfundi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fundurinn verði haldinn sem fyrst

Andrea Sigurðardóttir, formaður utanríkismálanefndar Sjálfstæðisflokksins og fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu, viðraði þá hugmynd á fundi formannanna að seinka landsfundi fram á vor til þess að geta betur undirbúið hann og um leið fengið meira út úr honum. Frá þessu greinir hún í færslu á Facebook.

Andrea segir sjálfstæðismenn hafa einbeitt sér að alþingiskosningunum síðustu vikur. Því hafi hún lagt til að fundi yrði frestað, til að gefa flokksmönnum smá andrými. Þá sé tímalínan orðin mjög brött hvað varðar að standa við alla þá fresti sem skipulagsreglur flokksins gera ráð fyrir.

„Í mínum huga er þó mikilvægt að hann verði haldinn sem fyrst, en með einhverri eðlilegri tímalínu. Hugnaðist mér vorið vel í því samhengi en haustið til vara ef ekki væri unnt að tryggja aðstöðu undir svo stóran fund með þeim fyrirvara. Undir þau sjónarmið hafa margir tekið (og aðrir ekki) en meðal annars hefur verið rætt um að vor eða haust sé eflaust hentugri tímasetning fyrir landsbyggðina, þar sem veðurguðirnir eru almennt blíðlyndari á þeim árstíma,“ skrifar Andrea. 

Bjarni Benediktsson var endurkjörinn formaður á síðasta landsfundi.
Bjarni Benediktsson var endurkjörinn formaður á síðasta landsfundi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hún segir allt tal um baktjaldamakk tóma þvælu. „Þetta eru eðlilegar umræður um tímalínu í hópi fólks sem stýrir mikilvægum hluta undirbúningsvinnu fyrir fundinn.“

Þá þykir henni miður að vinnuskjali hafi verið lekið. „Það bréf sem einhverjir fjölmiðlar hafa undir höndum er í drögum og hafa verið gerðar athugasemdir við það, meðal annars frá mér komið, sem á eftir að taka tillit til. Umræðu um þetta meðal formanna málefnanefnda er ekki lokið. Hins vegar þykir mér miður að vinnuskjali sem þessu sé lekið og látið líta út fyrir að hér sé um fullmótaða ályktun að ræða.“

Ekki nauðsynlegt að fresta fundi

Kristófer Már Maronsson er formaður efnahags- og viðskiptanefndar Sjálfstæðisflokksins. Í samtali við mbl.is segist hann ekki styðja að landsfundi verði frestað fram á haust. Eðlilegra sé að fresta honum um nokkrar vikur eða fram á vor. Að hans mati er hins vegar ekki nauðsynlegt að fresta fundinum. 

Hann segir einu skynsamlegu rökin fyrir frestun fundar vera að gefa málefnanefndum tíma til að ráðfæra sig við flokksmenn áður en drög að ályktunum eru send miðstjórn. Þá geti miðstjórn einnig gefið nefndunum lengri frest til að skila af sér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka