„Þetta mun allt enda með ósköpum“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir fyrirætlanir nýrrar ríkisstjórnar í Evrópumálum ekki geta endað með öðru en ósköpum fyrir hana sjálfa. Málið sé einfaldlega „allt á röngunni.“

Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Bjarna á vettvangi Spursmála. Þar er hann spurður út í yfirlýsingu hinnar svokölluðu Valkyrjustjórnar um að stefnt sé að þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðiladarviðræðna við Evrópusambandið eigi síðar en árið 2027. Um það segir í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar, síðasta lið hennar sem er númer 23:

  • „Þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu fer fram eigi síðar en árið 2027. Í upphafi kjörtímabilsins verður óháðum erlendum sérfræðingum falið að vinna skýrslu um kosti og galla krónunnar og valkosti Íslands í gjaldmiðlamálum.“

Hyggjast standa á hliðarlínunni

Bjarni segir það ekki ganga upp að flokkarnir sem vilji koma Íslandi inn í Evrópusambandið ætli með einhverju móti að standa á hliðarlínunni þegar kemur að þessu stóra hagsmunamáli. Sjálfstæðisflokkurinn muni hins vegar beita sér haf hörku gegn aðild að ESB, það byggi á hugsjón.

Á sama tíma sé hálfkákið hjá nýrri ríkisstjórn yfirgengilegt. Ef einhver raunverulegur vilji væri til þess meðal þjóðarinnar að halda áfram á þessari vegferð hefði verið hreinlegast að boða til atkvæðagreiðslunnar strax á nýju ári.

Orðaskiptin um þetta mál í þættinum má sjá í spilaranum hér að ofan en þau eru einnig rakin í textanum hér að neðan:

Eins og mara yfir þjóðfélaginu?

Evrópumálin. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið þversum í þeim efnum. Þarna eru tveir stórir flokkar sem hafa haft þetta á stefnu sinni. Þeir eru að boða atkvæðagreiðslu í síðasta lagi 2027 um framhald aðildarviðræðna. Verður ekki allt undirlagt í þessum málum fram að þeim tíma? Leggst þetta ekki eins og mara yfir þjóðfélagið hérna næstu tvö til þrjú árin?

„Það helst sem ég hef við þetta að athuga er hvernig menn eru að nálgast þetta hugmyndafræðilega. Það er ekki óvænt að þeir vildu ýta þessu á undan sér vegna þess að þau sjá það öll að það er glapræði. Það er enginn stuðningur við, ef það væri einhver stuðningur við að ganga í Evrópusambandið núna þá hefðu þau auðvitað bara viljað klára það núna í janúar. Vegna þess að allir væru bara að kalla á það að ganga í Evrópusambandið. Hver hefði viljað fresta því í tvö ár eða annað?“

Bjarni Benediktsson er formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson er formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristófer Liljar

Földu málið aftan við bak

En þau vilja fara inn í Evrópusambandið. Þau segja að langtímahagsmunir Íslands séu tryggðir þar inni. Þorgerður Katrín hefur sagt það, Kristrún hefur gert það og allt hennar fólk.

„Já, en mér fannst mjög lítið fara fyrir því. Það var meira að við vorum að draga það fram og benda á það í aðdraganda kosninganna að ef þau fengju tækifæri til þess þá myndu þau setja málið á dagskrá, jafnvel þótt þau væru með það dálítið falið bak við bak. Og það er nákvæmlega það sem er að koma í ljós.“

„Ótrúlega dapurt mál“

Segir Bjarni málið allt hið dapurlegasta.

„Hugmyndafræðilega er þetta alveg ótrúlega dapurt mál. Vegna þess að þeir sem í hjarta sínu trúa því að við eigum að erindi inn í Evrópusambandið að það sé hagsmunamál fyrir okkur til lengri tíma að ganga í Evrópusambandið. Þeir ættu að segja: Það er þangað sem við ætlum að fara, við veðrum að fara þangað. Það er þarna sem hagsmunum okkar er best borgið. Til þess að leggja af stað í þá vegferð og ljúka þeim svo með samningum þá ætlum við að bera málið undir þjóðina í þjóðaratkvæði og við ætlum að sjálfsögðu að berjast fyrir því að það verði farið í Evrópusambandið. Og leggja eitthvað undir, að setja stefnumál sitt í kosningu með því að segja þetta er það sem við stöndum fyrir og við ætlum að standa og falla með því. Nei, það er ekki það sem þau gera. Þau segja: það er svo mikilvægt að framkalla þjóðarviljann einhvern  veginn með kosningu og við ætlum ekkert að hafa skoðun á því, við ætlum ekki að segja fólki hvað það eigi að kjósa. Þetta er bara mál sem er framkvæmdarlegt atriði. Mikilvægt að það fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla fyrst Jóhönnustjórnin lét hana ekki fara fram árið 2009 eins og hún átti að gera. Og svo sjáum við bara hvað kemur út úr þessu. Þetta er bara einhver furðuhugmynd. Þetta hefur hvergi verið gert, það hefur hvergi nokkurs staðar verið gert.“

Hvernig endar þetta?

„Þetta getur ekki endað nema með ósköpum fyrir stjórnina. Vegna þess að stjórnin er að segja að hún ætli að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem hún hefur enga sérstaka skoðun á. Ætlar ekkert að leggja neitt að veði til þess að fá einhverja niðurstöðu með þetta. Þetta er allt saman á röngunni, þetta stendur allt saman á haus. Enda lagði ég það til að málið færi til þjóðarinnar þegar Jóhanna og Steingrímur óskuðu eftir því við þingið að fá að sækja um þá sagði ég hvort við ættum ekki að spyrja þjóðina fyrst þetta er það sem þið viljið gera. En að segjast ætla að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu án þess að leggja nokkuð undir og í sjálfu sér án þess að vera með neitt þingmál til þess að að setja umræðuna af stað.“

Ekki klókt

En er þetta ekki klókt af þeim?

„Þetta er auðvitað þannig að það er ekki að halda neinu áfram. Það verður auðvitað að taka málið upp frá rótum. Það er alveg augljóst.“

Minnir á Icesave-atkvæðagreiðsluna

En er þetta ekki klókt hjá þeim að gera þetta svona fyrst það er ekki samstaða um þetta í stjórninni? Var nokkur önnur leið fyrir þau að brúa þetta bil milli flokkanna?

„Ef þú heldur að það sé klókt þá segi ég að þetta mun allt enda með ósköpum, ef það er svona sem menn ætla að halda á þessu. Alveg eins og allar atkvæðagreiðslur þar sem menn eru bara að fara í gegnum einhver formsatriði með því að láta kjósa. Þetta er svona, við sáum þetta auðvitað gerast þegar fyrri Icesave-atkvæðagreiðslan fór fram þá töluðu þau þetta allt saman niður, sögðu að þessi atkvæðagreiðsla væri bara óþarfi, enda fengu þau 98% á móti sér. Og mér finnst bara engin bragur á því. Ef menn vilja láta kjósa um Evrópumálin þá verða menn að setja hjartað í málið. Ég skal segja þér hvað Sjálfstæðisflokkurinn mun gera. Hann mun berjast gegn því að ríkisstjórnin fái heimild til þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu að nýju. Vegna þess að við erum stjórnmálaflokkur sem hefur skoðun á þessu máli. Við eigum erindi við þjóðina, við höfum rödd, við höfum hugsjónir, við ætlum að leggja þær hugsjónir fyrir fólk og biðja það að íhuga hvað það eigi að gera með atkvæði sitt. Við ætlum ekki að standa á kantinum og segja, ja, hér er bara mál sem er þannig vaxið að við treystum okkur ekki til að hafa skoðun.“

Mun þessi stjórn sitja fjögur ár?

„Ég ætla engu að spá fyrir um það. Hingað er komin stjórn sem hefur meirihluta á þinginu og það er mikið undir þeim sjálfum komið hvernig úr spilast.“

En þú ert sérfræðingur í þessum efnum, þú hefur komið að stjórnum sem springa í loft upp.

„Það er ein stjórn sem hefur haldið út. Það er ríkisstjórnin sem við vorum í. Hún hélt ekki bara út, hún sat í sjö ár sem er algjört met.“

Viðtalið við Bjarna Benediktsson má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka