Kerfi sem mun éta sig upp að innan

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að útþensla strandveiðikerfisins sé staðfesting á því að kerfið éti sig upp að innan. Hann segir nýja ríkisstjórn ekki gefa skýr svör um það hvernig hún hyggist standa að málum, jafnvel þótt búið sé að gefa út að strandveiðitímabilið verði lengt og ótakmarkað við 48 daga.

Bjarni er gestur Spursmála að þessu sinni þar sem þessi hluti fiskveiðistjórnunarkerfisins er til umfjöllunar.

Mun að öllu óbreyttu leiða til mun meiri veiði

Strandveiðar hafa hingað til  verið stöðvaðar þegar úthlutuðum aflaheimildum hefur verið mætt af strandveiðiflotanum. Í ár átti úthlutaður kvóti að nema 10.000 tonnum af þorski en matvælaráðherra hækkaði viðmiðið um 2.000 tonn. Var það magn komið á land um miðjan júlí og stöðvaði þá Fiskistofa veiðar.

Líkt og fyrri ár, þegar það hefur gerst hafa strandveiðisjómenn og samtök þeirra mótmælt harðlega og vísað til þess að nauðsynlegt væri að flotinn gæti fullnýtt sína 48 daga, óháð því magni sem kæmi á land á þeim tíma.

Í ár voru 552 bátar skráðir til veiða við upphaf þeirra og hafði fjölgað um 36 milli ára.

Strandveiðar Smábátasjómenn gera meðal annar út frá Akureyri meðan veiðitímabilið …
Strandveiðar Smábátasjómenn gera meðal annar út frá Akureyri meðan veiðitímabilið stendur. mbl.is/Margrét Þóra

Ekki nóg til skiptanna fyrir alla

Vill Bjarni meina að í þessu kerfi muni auknar heimildir einfaldlega leiða til fjölgunar báta og þannig verði vítahringurinn til þess að aldrei verði nóg til skiptanna fyrir alla. Slíkt hendi alltaf þar sem ótakmarkaður aðgangur er veittur að takmörkuðum auðlindum.

Athygli vakti í kjölfar myndunar Valkyrjustjórnarinnar að stefnuyfirlýsing hennar kveður skýrt á um að efla skuli strandeiðar og er það í anda þess sem frambjóðendur Flokks fólksins höfðu talað fyrir.

Nýr atvinnuvegaráðherra, Hanna Katrín Friðriksson, hefur lýst því yfir að fyrrnefndar breytingar á strandveiðikerfinu séu forgangsmál ríkisstjórnarinnar.

Nýr fjármála- og efnahagsráðherra, dr. Daði Már Kristófersson, sem einbeitt hefur sér að rannsóknum í auðlindahagfræði, hefur hins vegar komist að þeirri niðurstöðu, í samstarfi við fleiri fræðimenn að strandveiðikerfið leiði til sóunar. Það áréttaði hann m.a. í grein í tímaritinu Regional Studies in Marine Science árið 2021.

Hvað varð um öll stóru málin?

Orðaskiptin um þetta mál má sjá í spilaranum hér að ofan en þau eru einnig rakin í textanum hér að neðan.

Hvað er það þegar þú horfir inn á, jú fyrstu verk þessarar ríkisstjórnar, þau eru aðeins farin að sýna á spilin í einstaka málum, segja strandveiðarnar eins og ég nefndi hér inngangi, vera lykilatriði og annað. Hvað er það sem stjórnarandstaðan og þið þar með að taka á móti fyrsta kastið? Það eru ekki fjárlög framundan...

„Það sem mér finnst kannski standa helst upp úr á þessum tímapunkti er bara, hvað er að frétta? Hvað varð um öll stóru málin sem við höfum verið að takast á um hér? Hvað varð um tillögur Kristrúnar Frostadóttur fyrir árið 2024? Hún kom bara með lista af skattahækkunum sem hún vildi fara í, fjármagnstekjuskattur og bankaskattur og hvað þetta allt saman hét.“

Er ekki best að þegja yfir þessu svo við endurvekjum ekki þær hugmyndir?

„Jú, jú, en okkur var sagt að ástæðan fyrir þeim vanda sem við vorum að glíma við, verðbólgu, efnahagslega lægð á þessu ári, sem ég tel reyndar að muni koma í ljós að hafi ekki verið svo slæmt ár hvað hagvöxtinn varðar, 2024, að ástæðan fyrir þessu öllu hefði verið að menn hefðu látið undir höfuð leggjast að afla ríkissjóði tekna og það var alltaf talað um vannýtta tekjustofna. Það eina sem eftir stendur af því er almennt tal um auðlindagjöld og svo boðun á frekari veiðigjöldum þar sem mér heyrist þau vera að hugsa um einhverskonar þrepaskipt veiðigjald sem mér líst ekki neitt sérstaklega vel á,“ segir Bjarni.

Hvert eru þau að fara?

En hann er mjög svartsýnn á þær aðgerðir sem nú eru boðaðar í strandveiðunum.

„En hvað strandveiðarnar varðar þá er bara verið að halda áfram að þróa kerfi sem mun éta sig að innan, þ.e.a.s. þegar þú gefur frjálsan aðgang að takmörkuðum heimildum þá fjölgar alltaf í hópi þeirra sem vilja fá að njóta þar til of lítið er til skiptanna fyrir hvern og einn. Þetta er nákvæmlega það sem við sögðum í þinginu þegar þetta kerfi var búið til, þetta er nákvæmlega það sem hefur gerst og þegar of margir eru komnir inn í kerfið en það sem er til skiptanna, hvað gera með þá? Þá grípa menn til svona ráða. Menn segja bara, nú munu bara allir fá fullan skammt, allir munu fá 48 daga. Hvað þarftu að gera til þess að tryggja það? Þú þarft að stórauka heimildirnar. Hvað gerist eftir að þú hefur stóraukið heimildirnar þannig að allir sem núna vilja fá sína 48 daga geta fengið, það bara heldur áfram að fjölga. Og hvað ætlar þú þá að gera? Þetta er kerfi sem heldur áfram að éta sig að innan.“

Heldur áfram að fjölga? Mér sýnist nú bara meðalaldur strandveiðisjómanna, þetta eru meira og minna bara einhverjir tannlæknar úr Garðabæ sem hafa gert þetta að dýru hobbíi, er þetta ekki bara deyjandi stétt miðað við meðalaldurinn?

Halda talsverðu lífi í höfnunum

„Nei, það held ég alls ekki. Ég meina við skulum ekki gera lítið úr því að strandveiðarnar halda talsverðu lífi í höfnunum víða um landið.“

Yfir mjög skamman tíma ársins.

„Já yfir skamman tíma ársins. En engu að síður, ég vil ekki láta í það skína að ég styðji ekki ákveðna fjölbreytni í kerfinu en þessi þáttur kerfisins er alltaf líklegur til að éta sig að innan og hann er að gera það. Þess vegna þarf að stöðva veiðarnar svona snemma. Það er líka ákveðin ósanngirni í því hvernig heildarpotturinn skiptist milli landssvæða, þetta kemur langbest út fyrir Vestfirðina og Vesturlandið en að segja bara sísvona að það muni allir fá sína 48 daga, hvað eru menn að segja í raun og veru? Ég væri bara til í að heyra það vegna þess að þetta eru stjórnmálaflokkar sem eru með þetta sem stefumál. Þeir eru að kynna þetta fyrir þjóðinni. Get ég ekki bara fengið að skilja hvað þeir eru að meina?“

Við eigum eftir að fá atvinnuvegaráðherrann okkar hingað fyrr en varir, geri ég ráð fyrir.

Viðtalið við Bjarna Benediktsson má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan:

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert