Bjarki Sveinbjörnsson, tónlistarfræðingur og fyrrverandi forstöðumaður Tónlistarsafns Íslands, hefur þungar áhyggjur af framtíð þess mikla safnkosts, gagna og hljóðfæra um tónmenningu Íslendinga, sem safnað hefur verið á umliðnum áratugum og að sýningarhald hefur fallið niður.
Bjarki og Jón Hrólfur Sigurjónsson, sérfræðingur og samstarfsmaður hans, hafa í yfir 30 ár unnið að viðamikilli söfnun heimilda og annarra gagna um tónlistariðkun Íslendinga og að margvíslegum verkefnum tengdum tónlist, miðlun og sögu. Þegar Tónlistarsafnið í Kópavogi var lagt niður árið 2017 og safnið flutt í Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, fengu Bjarki og Jón vinnuaðstöðu í Þjóðarbókhlöðunni. Gegndi Bjarki þar stöðu fagstjóra yfir hljóð- og myndsafni. Störfuðu þeir við safnið þar til í ágúst í fyrra þegar þeir létu af störfum og fóru á eftirlaun. Stöðurnar hafa ekki verið auglýstar á nýjan leik. „Munirnir eru í geymslum og rýmið er autt af tónmenningu,“ segir Bjarki í samtali við Morgunblaðið.
Margvíslegir munir sem tónlistarsafnið hefur fengið að gjöf í gegnum tíðina eru flestir í geymslum og engum þar sýnilegir eða aðgengilegir, auk þess sem sýningarhald hefur að mestu lagst niður eftir að tónlistarsafninu var lokað í Kópavogi. „Mér finnst sárt til þess að vita að það urðu þessar tvær stöður sem lagðar voru niður til að bæta rekstur Landsbókasafnsins,“ segir Bjarki.
Í greinargerð um stöðu og framtíð tónlistarsafnsins og hvernig tónlistararfinum verði sinnt í Landsbókasafninu, sem Bjarki og Jón tóku saman eftir að þeir létu af störfum, segja þeir að yfrirvöld Landsbókasafnsins hafi talað um að með haustinu á síðasta ári yrði auglýst eftir hæfu fólki í þeirra stað.
„Haustið leið og vorið líka en ekkert fréttist af starfsauglýsingu. Nú heyrast fréttir um að ekki standi til að auglýsa heldur skuli nota þær stöður sem við gegndum til að mæta niðurskurðarkröfu ríkisins til Landsbókasafns. Þetta yrði óásættanleg niðurstaða fyrir tónlistarlífið á sama tíma og íslensk tónlist og tónlistarfólk er verðlaunað og dáð vítt um heim, Tónlistarmiðstöð tekur til starfa og öflugt uppbyggingarstarf tónlistarsafns í Landsbókasafni undangengin ár,“ segir þar.
Nánar má lesa um málið í laugardagsblaði Morgunblaðins.