„Reynt að gefa fólki sem mest frí“

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dregið hefur verið úr viðbragði og viðbragðsaðilar verið hvíldir í Grindavík. Að sögn bæjarstjóra má gera ráð fyrir að gist verði í 40-50 húsum í bænum um áramótin.

Sjöunda eldgosinu á Sundhnúkagígaröðinni lauk 9. desember. Landris er þó hafið á ný og eru auknar líkur á eldgosi sem gæti brotist út á næstu vikum.

Viðbragðsaðilar til taks ef á þarf að halda

„Það hefur verið reynt að draga úr viðbragði núna og hvíla mannskapinn miðað við það álag sem hefur verið. Það er svo sem ekkert í kortunum sem bendir til þess að það verði neitt sérstakt í gangi í jörðinni núna á næstunni og þess vegna er bara reynt að gefa fólki sem mest frí,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur.

„Það er auðvitað þannig að bæði lögreglan, björgunarsveitir, slökkviliðið og sjúkrabílar eru til taks ef á þarf að halda en það er ekki eins mikil mönnun í bænum eins og þegar það fer að draga til einhverra tíðinda.“

Gist í 40-50 húsum

Aðspurður segir Fannar að gist hafi verið í 40-50 húsum í bænum yfir hátíðirnar sem sé svipaður fjöldi og hafi verið vikurnar á undan, eftir að opnað var inn í bæinn á nýjan leik.

Þá má gera ráð fyrir að gist verði í svipað mörgum húsum á áramótunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert