Agnar Már Másson
Rúmlega 80 jarðskjálftar hafa mælst í hrinu sem hófst við Eldey á Reykjaneshrygg í nótt. Ekkert bendir til að skjálftahrinan fari dvínandi.
Tveir skjálftar yfir þremur að stærð hafa mælst á svæðinu, einn í nótt og annar upp úr hádegi í dag.
Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir við mbl.is að skjálftahrinur séu algengar á svæðinu enda séu upptök skjálftanna á flekaskilum við Reykjaneshrygg.
Þessi hrina er þó öflugri en flestar sem orðið hafa á svæðinu undanfarin ár.
„Það er svona eins og þetta sé að aukast síðustu ár,“ segir Böðvar en bætir þó við að skjálftamælum hafi verið fjölgað á Reykjanesskaga vegna jarðhræringa síðustu ára, sem gæti skýrt fjölgunina.
Aðspurður segir hann ólíklegt að eldgos sé að hefjast, en það sé þó erfitt að segja til um það. Það sé erfiðara að nema slíkt úti á hafi en eins og staðan er núna sjáist enginn marktækur gosórói á mælum Veðurstofunnar.
Um klukkan fjögur í nótt hleypti skjálfti 3,2 að stærð hrinunni af stað, að sögn Böðvars.
Hún virtist síðan hafa fjarað út þar til að annar stór skjálfti, 3,6 að stærð, blés nýju lofti í hrinuna. Nú hafa ríflega 80 skjálftar mælst á svæðinu síðasta sólarhring.
„Og mér sýnist hún ekki vera hætt þessi hrina. Hún er enn þá í gangi,“ segir Böðvar.
„Og þetta á eftir að aukast.“