Nóg hefur verið að gera í Kringlunni dagana eftir jól en mikill fjöldi fólks hefur gert sér ferð í verslunarmiðstöðina, ýmist til að skila eða skipta gjöfum. Þá eru margir farnir að huga að áramótunum.
Þetta segir Baldvina Snælaugsdóttir, markaðsstjóri Kringlunnar, í samtali við mbl.is.
Frá því að Kringlan opnaði aftur eftir jól hafa ríflega 43.000 manns gert sér ferð þangað. Baldvina segir fjöldann dálítið meiri en síðustu ár sem hún telur orsakast af því að fáir virkir dagar séu á milli hátíða.
„Fólk er mikið að koma að skila og skipta öllu mögulegu og svo er fólk komið í áramótagírinn. Það er að undirbúa áramótin - bæði veislurnar og fatnaðinn,“ segir Baldvina.
Það var einnig nóg að gera í Kringlunni dagana fyrir jól og var aðsóknin meiri í ár en árið áður.
Aðspurð segir Baldvina að það hafi verið mjög mikið að gera á aðfangadegi, sem sé í samræmi við síðustu ár.
„Það var mjög mikið að gera og margir á síðustu stundu. Það eru alltaf einhverjir sem eiga allt eftir.“