Svifryksmengunin gæti hangið „nokkuð lengi yfir“

Svifryksmengun fylgir flugeldum.
Svifryksmengun fylgir flugeldum. AFP

Búast má við talsverðri svifryksmengun á höfuðborgarsvæðinu gamlárskvöld. Verður það vegna logns og frosts samhliða flugeldasprengjum. 

Þetta segir Svava Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi frá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, í samtali við mbl.is. 

Mengunin lokast inni

„Við erum búin að fá þær upplýsingar frá Veðurstofunni að það verður svolítið hægur vindur þessar klukkustundir í kringum miðnætti á gamlárskvöld, og það verða skil í háloftunum sem loka mengunina inni. Þá eru nokkrar líkur á því að þetta hangi nokkuð lengi yfir okkur, þannig að við óttumst að svifryksmengunin geti orðið með meira móti.“

Aðspurð að því hvort fólk geti eitthvað gert til þess að forðast mengunina eða sporna við henni, segir Svava að heilbrigðiseftirlitið beini því til fólks sem er viðkvæmt fyrir að takmarka eða jafnvel forðast útivist.

„Þessir viðkvæmu hópar eru meðal annars aldraðir, ung börn og fólk sem er með undirliggjandi sjúkdóma, svo sem hjarta- og æðasjúkdóma, öndunarfærasjúkdóma og astma og svoleiðis.“

Hvetur fólk til að sprengja minna 

„Svo auðvitað hvetjum við fólk alltaf til þess að sprengja minna, ef það getur. Það er skiljanlegt að fólk vill styrkja björgunarsveitina og fleiri með kaupum á flugeldum, en við bendum fólki á að íhuga aðrar og umhverfisvænni leiðir til að styrkja.“

Hún segir að ætla megi að langmesta mengunin verði á höfuðborgarsvæðinu, enda sé hér mest skotið upp. 

Svava bendir á að hægt sé að fylgjast með stöðu mengunar annað kvöld á ýmsum stöðum víðsvegar um landið inn á vefnum loftgaedi.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert