Svona áttu að bregðast við draugaásókn

Fjölmargar heimildir, allt aftur í Íslendingasögur kveða á um hvernig fólk getur varist og jafnvel bjargað geðheilsu eða lífi sínu, þegar draugar sækja að.

Bjarni Harðarson sem er manna fróðastur um drauga segir einu leiðina til að verjast alvarlegri ásókn sé að girða niður um sig og reka afturendann í átt að draugnum og bakka þannig til bjargar.

Hann segir fjölmargar sögur allar á eina leið, þegar vinnukonur til að mynda voru sendar að næturlagi til að sækja eitthvað fyrir prestinn í kirkjuna. Oft var um að ræða eitthvað bókarkyns og það kom fyrir að draugar héldu til í kirkjum að næturlagi. Draugar reyndu gjarnan að hefja samtal við vinnufólkið en um leið og draugnum er svarað er allt tapað.

Þetta er ekki bundið við vinnukonur eða kirkjur. Þannig vitnar Bjarni til þeirrar skelfilegu lífsreynslu sem Hallvarður í Sandhólaferju varð fyrir í fjárhúsum. Það var einmitt milli jóla og nýárs þegar myrkrið er hvað mest. Réðust að honum villudýr og fann hann ekki dyrnar til útgöngu fyrr en hann girti niður um sig og bakkaði og þá skyndilega fann hann undankomuleiðina.

Taldi rétt að birta þetta ekki

Bjarni Harðarson taldi rétt að vera ekki að birta þetta í viðtalinu. Í ljósi þess hversu mikið kann að liggja við þá var talið rétt að halda þessu í viðtalinu og fólk er þá betur í stakk búið til að takast á við svo alvarlegar aðstæður, komi þær upp.

Bjarni fer um víðan völl í Dagmálum á þessum næst síðasta degi ársins þar sem umræðuefnið er draugar. Þessar verur hafa fylgt okkur alla tíð og til eru hryllilegar sögur af hvers kyns ásókn í gegnum aldirnar. Öflugastir eru draugar á þessum árstíma þegar myrkrið hefur yfirhöndina.

Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur áskrifendum Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert