Lögreglu var tilkynnt um eld í bifreið í Kópavogi. Ekki eru frekari upplýsingar um málið sem er í rannsókn.
Í Kópavogi missti ökumaður stjórn á bifreið sinni vegna hálku en slapp ómeiddur frá slysinu.
Sömu sögu er ekki að segja af ökumanni bifreiðar sem leita þurfti á bráðamóttöku með minni háttar áverka eftir umferðarslys í Garðabæ. Þá varð bifreiðin fyrir skemmdum.
Þriðja umferðarslysið varð í Árbæ þar sem tvær bifreiðar skullu saman. Ekki urðu slys á fólki og er málið í rannsókn.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í dagbók lögreglu frá klukkan 5 í morgun til 17 síðdegis í dag. Tveir voru vistaðir í fangageymslu lögreglu klukkan 17 og 52 mál skráð á tímabilinu í lögreglukerfi ásamt ýmsum aðstoðarbeiðnum og eftirliti.
Tilkynnt var um innbrot á vinnusvæði í Hafnarfirði og tvö innbrot í bifreiðar, annars vegar í póstnúmeri 105 og hins vegar í póstnúmeri 110. Öll málin eru í rannsókn.
Þá var einnig tilkynnt um þjófnað í tveimur matvöruverslunum, annars vegar í póstnúmeri 108 og hins vegar í póstnúmeri 201.
Lögregla fékk sömuleiðis tilkynningu um grunsamlegar mannaferðir á svæðinu við Grafarholt og Úlfarsárdal og um mann í annarlegu ástandi sem ráfaði um illa klæddur á stuttermabol. Þegar lögreglu bar að garði var hann orðinn kaldur og ekið til síns heima.