„Frumskylda ríkisins að tryggja öryggi borgaranna“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar. mbl.is/Árni Sæberg

Ný ríkisstjórn ætlar að vinna varnar- og öryggisstefnu fyrir Ísland sem miðar að því að styrkja stöðu landsins í breyttum heimi. Mikilvægt er að skoða hvernig varnarsamningurinn frá 1951 taki til nýrrar öryggisáhættu eins og netárása eða eyðileggingu á sæstrengjum í kringum landið.

Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar, í áramótagrein sinni sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

Með vaxandi ólgu á alþjóðavettvangi skipti máli að Ísland tali fyrir friði og því að alþjóðalög séu virt. Staða heimsmálanna kalli á nánari og virkari samvinnu við Evrópusambandið, önnur norræn rík og aðildarríki Atlantshafsbandalagsins í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum.

Alþjóðasamvinna aldrei brýnni

Segir hún alþjóðasamvinnu sjaldan hafa verið brýnni en nú. Atburðir síðustu vikna í Eystrasaltinu undirstriki það, þegar sæstrengir voru skemmdir og öryggi grunnviða stefnt í hættu. Samstaða ríkja Atlantshafsbandalagsins skipti sköpum og dragi fram mikilvægi þessa að geta treyst á styrk og stuðning bandalagsríkja.

„Það er því brýnt að við hættum að líta á alþjóðasamstarf og varnarmál sem umræðuefni fast í pólitískum kreddum. Fyrir okkur er mikilvægt að við styrkjum samvinnu við önnur vestræn ríki og vinaþjóðir til að tryggja öryggi og stöðugleika inn í framtíðina. Enda frumskylda ríkisins að tryggja öryggi borgaranna.“

Mikilvægi öryggis og varna stærra en áður

Þorgerður segir einnig sjaldan hafa verið mikilvægara að að standa vörð um frelsið. Það hafi átt undir högg að sækja. Víða um heim sjáist tilhneiging til afturhalds þar sem stjórnvöld brjóti niður lýðræðislegar stoðir og grafi undan frelsi einstaklinga.

„Við upplifum stórkarlalega stórveldapólitík þar sem víða er grafið undan lýðræðinu og réttarríkinu með markvissum áróðri, deilum, skemmdarverkum og miskunnarlausum hernaði.“

Því sé mikilvægi öryggis og varna stærra en áður.

„Þess vegna er verkefni okkar hverju sinni að verja frelsið og efla það. Þess vegna þurfum við að taka virkan þátt í samfélagi þjóðanna á grundvelli lýðræðislegra stofnana, opinnar umræðu og réttlætis. Þess vegna verður Ísland áfram að vera stoltur talsmaður frelsis og frjálslyndis á alþjóðavettvangi. Því það er ekki aðeins ákvörðun um utanríkisstefnu, heldur hver við viljum vera sem þjóð.“

Greinina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert