Klukkan 12 verður Gamlárshlaup ÍR ræst í 47. sinn og því fylgja götulokanir. Þá verður lokað fyrir akandi umferð á Skólavörðuholti í kvöld.
Í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar segir að hlaupaleið hlaupsins er sú sama og undanfarin ár og verður rásmark á syðri akrein Sæbrautar fyrir framan Hörpu og endamark á planinu fyrir framan Hörpu.
Tímatöku hlaupsins lýkur klukkan 13.30 en gert er ráð fyrir að Sæbraut verði lokuð frá klukkan 10.30 til 13.30.
Skemmtihlaupið verður ræst 5-7 mínútum eftir ræsingu 10 kílómetra hlaupsins og hlaupið eftir sömu braut. Þrengt verður að umferð eða götum lokað eftir atvikum á meðan á hlaupinu stendur.
Götulokanir verða á Skólavörðuholti frá klukkan 22 til klukkan eitt eftir miðnætti.
„Markmiðið er að afmarka skotsvæði fyrir flugelda og tryggja öryggi fólks á svæðinu,“ segir í tilkynningunni en komið verður fyrir tryggum undirstöðum undir flugeldaskot og skotsvæðið afmarkað með keilum og borðum auk þess sem gæslufólk verður við störf.
Starfsfólk Reykjavíkurborgar mun sjá um lokanir gatna og frágang eftir miðnætti.