Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, segir um helming flugeldasölunnar eigi sér stað á gamlársdag. Margt bendi til þess að flugeldanotkun sé djúp áramótahefð Íslendinga.
„Ég heyrði í mönnum í gær sem voru að rýna í söluna og þeim sýndist þetta vera á pari við síðasta ár,“ segir Jón Þór í samtali við mbl.is.
Hann segir að þegar annar dagur flugeldasölunnar, sem eru fjórir í heildina, beri upp á sunnudegi sé oftast frekar rólegt að gera á þeim degi. Hann segir svo hafa verið í ár.
Jón Þór segir að í dag sé stóri dagurinn í flugeldasölu björgunarsveitanna.
„Það má segja að helmingurinn af sölunni eigi sér stað í dag. Hvort það sé helmingur af kaupendum veit ég ekki og er ekki endilega víst.“
Margt bendi til þess að það sé sterk áramótahefð hjá Íslendingum að koma við hjá björgunarsveitunum og kaupa flugelda.
„Á gamlársdag er þetta meðal þess sem er dregið í bú fyrir kvöldið. Þetta er merki um að þetta sé að verða djúp áramótahefð að kveðja árið með sinni eigin flugeldasýningu,“ segir Jón Þór.
Aðspurður segir Jón Þór fólk geta styrkt björgunarsveitirnar án þess að kaupa flugelda af þeim.
„Það eru um 35 þúsund manns sem eru bakverðir björgunarsveitanna og greiða mánaðarlega upphæð. Við erum afar stolt af þessum góða hóp sem stendur við bakið á björgunarstarfi í landinu.“
Þá nefnir Jón Þór einnig að neyðarkallinn sé einnig mikilvægur liður í fjáröflun björgunarsveitanna.
Að lokum ítrekar hann að fólk verði að fara varlega þegar flugeldum er skotið á loft.
„Við hvetjum fólk til að fara varlega, nota gleraugun og fylgja leiðbeiningum vörunnar sem verið er að nota. Áfengi og flugeldar fara ekki saman.“