Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að ef sumt af því sem Donald Trump, tilvonandi forseti Bandaríkjanna, hafi sagst hafa áform um, nái fram að ganga, geti það haft mikil áhrif á viðskipti í heiminum og á lífskjör okkar á Íslandi.
Sambandið við Bandaríkin hafi hins vegar alltaf verið gott og að mikilvægt sé að hlúa að því, sama hver sé forseti.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í áramótagrein Sigurðar, sem birtist í Morgunblaðinu í dag.
„Við lifum á tímum þar sem mikil óvissa ríkir á alþjóðasviðinu. Það geisar styrjöld í Evrópu. Fjölda fólks er fórnað á vígvellinum í Úkraínu. Það er nöturlegt að horfa upp á Rússa, sögulegt stórveldi sem nú stendur á brauðfótum og er stýrt af manni sem virðist svífast einskis til að halda stöðu sinni. Hryllingurinn á Gaza heldur áfram. Sýrland hefur losað sig við hinn hræðilega Assad en ástandið er viðkvæmt.“
Sigurður fer einnig yfir stjórnarslitin og aðdraganda þeirra. Trúin á síðustu ríkisstjórn hafi dofnað verulega og segir hann þjóðina í raun hafa búið við stjórnarkreppu.
„Þótt samstarfið hafi súrnað ansi hratt á síðara kjörtímabili ríkisstjórnarinnar þá tókum við í Framsókn þá afstöðu að mikilvægara væri að ganga hnarreist til verks og láta ekki sundurlyndi hafa eyðandi áhrif á þau brýnu verkefni sem flokkarnir þrír höfðu komið sér saman um í stjórnarsáttmála að hrinda í framkvæmd. Við ákváðum, eðlilega, að láta þjóðarhag hafa forgang umfram hagsmuni flokksins.“
Segist hann stoltur af þeim árangri sem Framsókn náði í ríkisstjórn frá árinu 2017. Framlög til samgöngumála hafi verið stóraukin, betra jafnvægi ríki á húsnæðismarkaði, stórsókn hafi átt sér stað í heilbrigðismálum og aðstaða barna sem eru veikust fyrir hafi verið bætt með farsældarlögum.
Fyrri ríkisstjórn hafi náð stjórn á verðbólgunni og að hægt sé að sá fram á mjúka lendingu hagkerfisins. Gatan sé því greið fyrir allhraðar vaxtalækkanir á nýju ári.
Sigurður segir nú mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að öðlast ró og hamingju. Árið sem sé að líða hafi einkennst af óróa og ofbeldi. Hlúa þurfi að fjölskyldum og sérstaklega börnum.
„Það kemur ekkert í staðinn fyrir það að eiga góða og sterka fjölskyldu sem hægt er að treysta á í lífsins ólgusjó.“
Greinina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.