„Ríkisstjórnin ætlar að valda óvissu“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir ríkisstjórnina ætla að valda óvissu meðal tveggja af meginstoðum hagkerfisins, í sjávarútvegi og í ferðaþjónustu. Óvissan birtist í óljósum skilaboðum um aukna skattheimtu.

Þetta kemur fram í færslu Áslaugar Örnu á Facebook.

„Sjávarútvegurinn og ferðaþjónustan þurfa ekki, frekar en aðrar atvinnugreinar, á óvissu að halda. Reynsla síðustu ára ætti að hafa kennt okkur að það er ekkert sjálfgefið þegar kemur að þessum mikilvægu atvinnugreinum.“

Þá bendir Áslaug á að ferðamenn komi ekki til Íslands af sjálfu sér heldur þurfi að sækja með öflugri markaðssetningu og kynningu.

„Að sama skapi liggur ekkert fyrir um árangur af fiskveiðum (þar nægir að horfa til loðnubrests síðustu ára) auk þess sem Ísland á í harðri samkeppni við mun stærri þjóðir um sölu og markaðssetningu á sjávarafurðum,“ kemur fram í færslu Áslaugar.

Ekki löstur að skapa verðmæti

„Þó það kunni að hljóma fjarstæðukennt í eyrum margra stjórnmálamanna, þá er það ekki löstur á atvinnugreinum að ná árangri, skila hagnaði, búa til verðmæti, fjárfesta í nýsköpun og svo framvegis.

Um leið og ég óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar í störfum sínum, þá er rétt að minna á mikilvægi þess að styðja í raun og veru við öflugt atvinnulíf. Við þurfum meira á því að halda heldur en það á okkur,“ kemur fram í færslu Áslaugar.

Að auki segir hún áherslur ríkisstjórnarinnar almennar og í litlu samræmi við áherslur flokkanna eins og þær voru kynntar í nýafstaðinni kosningabaráttu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert