Skatturinn varar við svikapóstum sem hafa verið sendir í nafni stofnunarinnar á milli jóla og nýárs.
Í tilkynningu segir að Skattinum og lögreglunni hafi borist ábendingar um að verið sé að senda út tölvupósta í nafni Skattsins.
Í póstunum segir að gerðar hafi verið breytingar á skattframtali og fólki boðið að smella á hlekk til að opna þjónustuvef eða skanna QR kóða.
„Þessar sendingar eru ekki á vegum Skattsins heldur eru þetta netsvik,“ segir í tilkynningunni.
„Pósturinn er ekki frá Skattinum, linkurinn leiðir ekki á þjónustuvef Skattsins og rétt er að benda fólki á að smella ekki á hlekkinn og gefa ekki upp neinar persónu- eða fjárhagsupplýsingar.“
Bent er á að gruni fólk að sending sé sviksamleg sé gott ráð að tilkynna hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun og/eða lögreglu. Hafi fólk orðið fyrir barðinu á svikahröppum skal leita til lögreglu.