Ákærður fyrir stunguárás

Grafarvogur.
Grafarvogur. mbl.is

Búið er að ákæra karlmann á þrítugsaldri sem er grunaður um að hafa stungið mann á fertugsaldri í Grafarvogi í október síðastliðnum.

Þetta staðfestir Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, við mbl.is en rannsókn lögreglunnar á málinu er lokið.

Gæsluvarðhald yfir þeim grunaða hefur verið framlengt til 27. janúar en hann hefur setið í gæsluvarðhaldi í tólf vikur. Ekki er heimilt að úrskurða sakborning til að sæta gæsluvarðhaldi lengur en í tólf vikur nema mál hafi verið höfðað gegn honum með útgáfu ákæru eða brýnir rannsóknarhagsmunir krefjist þess.

Maðurinn sem varð fyrir árásinni hlaut lífshættulegan stunguáverka á líkama. Hann var fluttur á bráðamóttöku þar sem gert var að sárum hans. Samkvæmt heimildum mbl.is átti árásin sér stað í Foldahverfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka