Þrettán létust í umferðarslysum hér á landi á síðasta ári, en svo margir hafa ekki látist í umferðinni síðan árið 2018, þegar fimmtán létust í umferðarslysum.
Árið 2024 fór í raun frekar illa af stað í umferðinni því í janúar létust sjö einstaklingar í fimm banaslysum.
Fjöldi látinna í umferðinni hefur ekki farið yfir tveggja stafa tölu frá árinu 2018, en eins og sést á meðfylgjandi grafi þá hafa tölur yfir fjölda látinna í umferðinni verið mjög mikið rokkandi síðastliðin 25 ár. Áberandi fleiri létust þó í umferðarslysum skömmu eftir aldamótin, heldur en síðustu ár.
Eftir mikið slysaár 2006, þegar 28 létust í umferðinni, þá fór banaslysum heldur fækkandi, til ársins 2014, en það ár sker sig úr því þá létust aðeins þrír í umferðinni allt árið.
Næstu fjögur árin á eftir fjölgaði þeim sem létust í umferðinni, en á árunum 2019 til 2023 hélst fjöldi látinna undir einum tug.