Vísa varð þremur mönnum frá borði flugvélar Play, sem var á leið til Tenerife fyrr í dag, vegna ölvunar. Flugstjóri mat ástand mannanna þannig að ekki væri óhætt að taka á loft með þá í vélinni og fengu þeir lögreglufylgd frá borði.
Þetta staðfestir Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi Play, í samtali við mbl.is, en Vísir.is greindi fyrst frá.
Birgir segir það alltaf flugstjórans að meta það hvort óhætt sé að taka af stað vegna ástands farþega, hvort sem ástæðan er ölvun eða einhver önnur.
Hann segist ekki hafa upplýsingar um hvers vegna ekki var talið óhætt að fljúga með mennina eða hvort einhver ógn stafaði af þeim.
„Það eina sem ég veit er að flugstjóri hafi metið sem svo að það hafi ekki verið óhætt að taka af stað miðað við þeirra ástand.“
Aðspurður hvort þeir hafi veitt einhverja mótspyrnu, segist hann ekki vita til þess.
Upphaflega stóð til að flugvélin færi frá Keflavík klukkan níu í morgun, en farþegar höfðu fengið upplýsingar um að brottför yrði seinkað til klukkan 13:50 í dag. Kom sú seinkun til vegna þess að verið er að vinna upp hala sem varð til vegna bilunar í einni vél félagsins. Brottför seinkaði ekki mikið til viðbótar vegna uppákomunnar.