Fluttur af gjörgæslu eftir hnífaárás

Maður á fimmtugsaldri var í gær úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald.
Maður á fimmtugsaldri var í gær úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan vinnur enn að rannsókn hnífstunguárásar sem átti sér stað á gistiheimili á Kjalarnesi á nýársnótt.

Þetta segir Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn í miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar, við mbl.is en maður á fimmtugsaldri var í gær úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald. Þrír voru handteknir eftir að tilkynning um málið barst á nýársnótt en lögregla var með mikinn viðbúnað og var sérsveit ríkislögreglustjóra kölluð til.

Þrír hlutu áverka í árásinni og hafa tveir þeirra verið útskrifaðir af sjúkrahúsi en sá er hlaut alvarlegustu áverkanna var um miðjan dag í gær færður af gjörgæslu á almenna deild Landspítalans að sögn Elínar Önnu.

Spurð hvort fleiri en einn sé með stöðu sakbornings í málinu segir Elín Agnes:

„Við erum að reyna að ná utan um þetta mál og það er ekki tímabært segja til um það á þessu stigi. Þarna átti sér stað einhver gleðskapur og það virðist hafa komið til átaka á milli mannanna.“

Hún vildi ekki greina frá þjóðerni mannanna, sem allir eru á fimmtugsaldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka