Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra hefur ráðið uppistandarann Jakob Birgisson og lögfræðinginn Þórólf Heiðar Þorsteinsson sem aðstoðarmenn sína.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Jakob Birgisson útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík 2018. Hann hefur starfað sem uppistandari síðan og hefur haldið fjölda sýninga um land allt. Samhliða uppistandi hefur Jakob starfað við texta- og hugmyndavinnu hjá auglýsingastofunni Hvíta húsinu.Þá hefur hann verið sjálfstætt starfandi við textagerð, stefnumótun og kynningarmál. Jakob á einnig feril í dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi.
Eiginkona hans er Sólveig Einarsdóttir hagfræðingur og eiga þau saman dæturnar Herdísi og Sigríði. Þau eru búsett í vesturbæ Reykjavíkur.
Þórólfur Heiðar Þorsteinsson lauk meistaraprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2007 og hlaut lögmannsréttindi árið 2010. Þá lauk hann LL.M gráðu frá Uppsalaháskóla árið 2015. Þórólfur hefur starfað sem lögfræðingur hjá Samkeppniseftirlitinu frá árinu 2022, en áður starfaði hann sem lögfræðingur hjá Bankasýslu ríkisins og BBA//Fjeldco.
Þórólfur hefur reynslu af félagsstörfum og er meðal annars varaformaður aðalstjórnar Breiðabliks og formaður áfrýjunardómstóls Körfuknattleikssambands Íslands. Þá hefur hann þjálfað yngri flokka í körfuknattleik hjá Breiðablik í mörg ár. Jafnframt er hann einn af eigendum veitingastaðarins Mossley á Kársnesinu.
Þórólfur er fæddur og uppalinn í Austur - Húnavatnssýslu en býr nú á Kársnesinu ásamt sambýliskonu sinni, Kristínu Evu Ólafsdóttur, framkvæmdastjóri Gagarín og eiga þau fjögur börn.
Jakob og Þórólfur hafa þegar tekið til starfa í ráðuneytinu.