Daði Már Kristófersson fjármála- og efnahagsráðherra hefur ráðið Jón Steindór Valdimarsson sem aðstoðarmann sinn.
Þetta segir í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Segir þar enn fremur að Jón Steindór hafi víðtæka reynslu úr stjórnmálum og atvinnulífi. Hann hafi setið á Alþingi fyrir Viðreisn árin 2016-2021, verið varaþingmaður frá 2021-2024 og starfað m.a. sem framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins en hann er lögfræðingur að mennt með MPM gráðu í verkefnastjórnun.
„Jón Steindór hefur fjölbreytta starfsreynslu. Má þar nefna að hann var lögfræðingur hjá fjármálaráðuneytinu árið 1985, staðgengill framkvæmdastjóra Vinnumálasambands samvinnufélaganna 1985 – 1988, aðstoðarframkvæmdastjóri og síðar framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins 1988 – 2010,“ segir í tilkynningunni.
„Jón Steindór var í stjórn Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands 2002–2013 og stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins 2000 - 2010, þar af stjórnarformaður árin 2004 - 2010. Varaformaður stjórnar Framtakssjóðs Íslands 2011–2012. Í stjórn Lánatryggingasjóðs kvenna 2011–2013. Formaður stjórnar Landsbréfa hf. 2011–2013. Í stjórn Regins hf. 2014–2015 og er í stjórn Ísavia frá árinu 2022.“
Þá kemur einnig þar fram að hann hafi verið formaður Já Ísland frá stofnun þess árið 2009 til ársins 2016 og einnig formaður Evrópuhreyfingarinnar frá stofnun árið 2022.