Lýðræði, kosningar, friðarhorfur í heimi, ofbeldismál, eldgos og framtíð Grindavíkur. Þessi efni voru áberandi í orðum sr. Guðrúnar Karls Helgudóttur biskups Íslands í Dómkirkjunni í Reykjavík í gærmorgun, í hennar fyrstu nýárspredikun í embætti.
„Ég neita því ekki að mér hefur fundist myrkrið á liðnu ári óvenjudimmt. Vandamálin eru stór og áföllin voru þung. En það er einmitt þá sem tímamót koma sér vel. Hvað tökum við með okkur úr þessum áföllum? Hvaða lærdóm viljum við draga af atburðum ársins. Upp úr áföllum síðasta árs óx nefnilega margt gott sem vekur von,“ sagði sr. Guðrún og enn fremur:
„Í kjölfar erfiðra atburða í sumar kom í ljós, einu sinni sem oftar, að þegar á reynir eigum við sem þjóð auðvelt með að sýna náunganum samkennd og okkur er sannarlega ekki sama um líðan og afdrif náungans. Þannig skapaðist til að mynda mikil umræða um líðan barna og fólks almennt hér á landi sem ég hef fulla trú á að muni leiða til góðs.“
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.