Fyrirhugað er að opna skíðasvæðið í Hlíðarfjalli í fyrsta sinn á þessum vetri næstkomandi laugardag.
„Það er loksins komið að því, við opnum á laugardaginn 10-16,“ segir í færslu skíðasvæðisins á Facebook í dag.
Þar kemur fram snjókoman hafi látið lítið á sér bera en að snjóframleiðsla hafi verið í gangi allan sólarhringinn frá því á sunnudaginn og verið sé að tengja saman leiðir og lyftur svo hægt verði að opna.
„Það verður þó aðeins takmörkuð opnun á neðra svæðinu fyrst um sinn en við munum halda áfram að framleiða til að bæta við í framhaldinu og auðvitað vonumst við til að fá væna sendingu af snjó sem fyrst,“ segir enn fremur í færslunni.
Þess má geta að lokað er á skíðasvæðinu í Bláfjöllum í dag sökum hvassviðris á svæðinu.