Ráðlagt að hlaða ekki rafbíla á Valhúsabraut

Bráðabirgðastrengur sem sér Valhúsabraut fyrir rafmagni þolir lítið álag.
Bráðabirgðastrengur sem sér Valhúsabraut fyrir rafmagni þolir lítið álag. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Alvarleg bilun varð á rafstreng á gamlárskvöld á Seltjarnarnesi. Rafmagn var komið á fyrir miðnætti en enn er mælt gegn því að hlaða rafbíla þar sem bilunin hafði hvað mest áhrif.

Rafmagnslaust varð við Valhúsabraut og Kirkjubraut 31. desember um klukkan 18.46.

Um einni og hálfri klukkustund síðar var aftur búið að hleypa rafmagni á Kirkjubraut en bilunin á Valhúsabraut var talin alvarlegri.

Rafmagni var komið þar á með bráðabirgðastreng klukkan 23.20. Var þá varað við því að hann þyldi lítið álag og því ætti alls ekki að hlaða rafbíla á meðan unnið væri að viðgerð.

Ætti að vera komið í lag fyrir helgi

Í tilkynningu frá veitum segir að í dag og á morgun verði unnið að viðgerð á rafstrengnum en viðgerð ætti að ljúka fyrir helgi. 

Er ítrekað að mikilvægt sé að halda álagi í lágmarki, sérstaklega með því að hlaða ekki rafbíla við hús í götunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka