Aldrei fleiri útlendingar afplánað dóm á Íslandi

Fjöldi erlendra ríkisborgara sem afplána dóma á Íslandi fjölgar áfram.
Fjöldi erlendra ríkisborgara sem afplána dóma á Íslandi fjölgar áfram. Samsett mynd/Colourbox/mbl.is/Sigurður Bogi

Hlutfall erlendra ríkisborgara sem afplánuðu dóm á Íslandi árið 2024 var 33%, sem er það mesta frá upphafi. Á hverjum degi voru að meðaltali 88 manns að afplána dóm í fangelsum Íslands en 22 fangelsispláss voru ekki í nýtingu á síðasta ári vegna viðhalds. 

Þetta kemur fram í svari Fangelsismálastofnunar við fyrirspurn mbl.is.

Þessi tala tekur utan um dagsmeðaltal þeirra sem afplána bæði innan fangelsa sem og utan fangelsa. 

Ekki var hægt að nýta 22 fangelsispláss vegna viðhalds

Ef aðeins er litið á þá sem afplána dóm í fangelsum á Íslandi þá er hlutfall erlendra ríkisborgara 35%. Alls voru að meðaltali 88 manns á dag sem afplánuðu dóm í fangelsum á Íslandi á síðasta ári. 

Þeir sem afplánuðu dóma í fangelsum á síðasta ári fækkaði á milli ára þar sem ekki var hægt að nýta 22 fangelsispláss á Litla-Hrauni vegna viðhalds. 

Árið 2019 og 2020 var hlutfall erlendra ríkisborgara sem afplánuðu dóm hér á landi 19%, árið 2021 var hlutfallið 17%, árið 2022 var það 21% og árið 2023 var það 28%.

Hundruð á boðunarlista

Á boðunarlista til að afplána dóm eru nú 340 manns og á boðunarlista í samfélagsþjónustu eru 180 manns.

Þar að auki eru yfir 182 á boðunarlista sem eru farnir úr landi og nokkrir óunnir dómar sem eru að fara í boðun.

Birgir Jónasson, settur fangelsismálastjóri, varaði við því í samtali við mbl.is í desember að það gæti þurft að hægja á boðun fanga í afplánun vegna 80 milljóna króna hallareksturs Fangelsismálastofnunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert